ALparnir

ÞAÐ BESTA AF MONT BLANC HRINGNUM

Í sumar skellum við okkur í ógleymanlega göngu í faðmi hæstu tinda Evrópu og njótum útivistar í náttúru sem á sér fáar hliðstæður. Komdu með og hlöðum okkur af fjallaorku fyrir veturinn!

 

Alparnir - Það besta af Mont Blanc!

Við bjóðum upp á tvær brottfarir sumarið 2020.  22. - 29. júní og 10. - 17. ágúst Við ætlum að heimsækja Sviss, Frakkland og Ítalíu – allt í einni vikulangri ferð. Komdu með okkur í krefjandi ævintýragöngu um óviðjafnanlegt landslag þar sem við gistum í fjallaskálum og smábæjum, ferðumst í kláfum og hver veit nema við rekumst á kýr með bjöllur um hálsinn einhversstaðar á leiðinni. Þetta eru Alparnir eins og þú hefur ímyndað þér! Gengið er á milli gististaða með allt á bakinu. Ferðin inniheldur fjóra göngudaga og gengnir verða samtals tæplega 60 kílómetrar yfir fjölbreytt landslag, m.a. snjóbreiður, og ætti að henta flestum sem eru í ágætu fjallaformi. 

DAGSKRÁ

Dagur 1: Reykjavík - Les Contamines

Við leggjum af stað frá Keflavík kl. 07:20 og lendum í Genf um kl. 13:00 að staðartíma. Þaðan tökum við rútu yfir landamærin til Frakklands og til smábæjarins Les Contamines í rúmlega klukkustundarfjarlægð. Þar eyðum við deginum í rólegheitum og undirbúum okkur fyrir næstu daga. Í boði verður að flytja farangur sem ekki þarf að ganga með frá hótelinu í Les Contamines og til síðasta hótels ferðarinnar í Chamonix. 

Dagur 2: Les Contamines - Refuge De La Croix Du Bonhomme

Eftir morgunverð röltum við í gegnum Les Contamines og Notre Dame gilið áleiðis upp í fjöllin. Leiðin er á köflum nokkuð brött en áfangastaðurinn okkar, Refuge De La Croix Du Bonhomme fjallaskálinn, býður upp á stórkostlegt útsýni – enda í um 2.500 metra hæð. Lengd: Um 13 kílómetrar og 1.350 metra hækkun (4,5 klst.)

Dagur 3: Refuge De La croix du bonhomme - rifugio elisabetta

Við setjum stefnuna á Col des Fours fjallaskarðið, einn af hæstu punktum leiðarinnar. Þaðan höldum við niður bratta hlíð og í La Ville Des Glaciers. Eftir hádegisstopp höldum við aftur upp í fjöllin í átt að Col de la Seigne þar sem við förum yfir landamærin til Ítalíu án þess að taka eftir því! Þaðan göngum við gegnum dal niður að áfangastaðnum okkar, Rifugio Elisabetta fjallaskálanum. Lengd: Um 14 kílómetrar (6,5 klst.).

Dagur 4: rifugio elisabetta - courmayeur

Eftir góða hvíld höldum við áleiðis niður Val Veny dalinn með stefnuna á ítalska smábæinn Courmayeur. Ef veður leyfir höldum við upp í hlíðarnar til suðurs og göngum áleiðis til austur í gegnum þorpið Checrouit á leið okkar til Courmayeur. Þegar þangað er komið innritum við okkur á hótelið okkar og njótum þess svo að eyða því sem eftir lifir dags undir gnæfandi tindum þessa ítalska póstkortabæjar. Lengd: Um 17 kílómetrar (5 klst.).

Dagur 5: courmayeur - rifugio bonatti

Að loknum morgunverði í Courmayeur höldum við áleiðis upp í fjöllin á ný í átt að Rifugio Giorgio Bertone. Þaðan liggur leið okkar upp bratta hlíð og eftir fallegum fjallshrygg í átt að Tete de la Tronche tindinum sem gefur okkur stórbrotið útsýni í verðlaun fyrir prílið. Af tindinum höldum við austurs niður í fallegan dal þaðan sem við eigum um klukkustundar þægilega göngu eftir á áfangastaðinn okkar, Rifugio Alpino Walter Bonatti, sem jafnfram er síðasti fjallaskáli ferðarinnar. Lengd: Um 12 kílómetrar (4 klst.).

Dagur 6: rifugio bonatti - chamonix

Frá skálanum höldum við í létta göngu til norð-vesturs niður á veg þaðan sem við ökum stutta vegalengd til Courmayeur. Frá Courmayeur ætlum við aftur yfir til Frakklands, nema í þetta skiptið í kláfum. Við munum fara í óviðjafnanlega útsýnisferð með þremur slíkum sem saman bera okkur frá Courmayeur til franska bæjarins Chamonix, norðan við Alpafjallagarðinn. Þaðan höldum við á hótelið okkar í bænum og eyðum þar næstu tveimur nóttum.

DAGUR 7: chamonix

Síðasta heila degi ferðarinnar eyðum við í Chamonix. Bærinn á ríka sögu en þar voru m.a. fyrstu Vetrarólympíuleikarnir haldnir árið 1924. Chamonix er í miklu uppáhaldi hjá fjallafólki frá öllum heimshornum og þar finna allir eitthvað við sitt hæfi, ýmist í formi afþreyingar eða verslunar. Við munum njóta dagsins saman eða í sitthvoru lagi en frjálst verður að haga tímanum eftir eigin höfði. Eftir góðan dag í þessum fallega bæ höldum við aftur á hótelið okkar og gerum klárt fyrir heimför daginn eftir.

DAGUR 8: Chamonix - reykjavík

Eftir morgunverð kveðjum við Chamonix og höldum í rútu á flugvöllinn í Genf. Það er brottför okkar til Íslands áætluð kl. 14:00 að staðartíma.
Staðfestingargjald: 50.000 kr. Möguleiki að skipta greiðslum á kreditkort.
Loading...

Staðfestingargjald er 50.000kr og þarf ferðin að vera greidd að fullu eigi síðar en 30 dögum fyrir brottför.

Sé óskað eftir léttgreiðslu þarf að hafa samband á info@tindartravel.is

INNIFALIÐ

 • Leiðsögn
 • Flug til og frá Genf með Icelandair + 1 innrituð taska
 • Akstur frá flugvellinum í Genf til Contamines
 • Gisting í 7 nætur með morgunverði, þar af 3 í fjallaskálum (svefnloft)
 • Flutningur á ógöngutengdum farangri frá fyrsta hóteli til þess síðasta
 • Kvöldverður í fjallaskálum
 • Akstur frá Rifugio Bonatti til Courmayeur
 • Kláfar milli Courmayeur og Chamonix
 • Akstur frá Chamonix til flugvallar í Genf

EKKI INNIFALIÐ

 • Almennur útbúnaður til ferðarinnar
 • Matur og drykkir aðrir en tilgreint er í ferðalýsingu (s.s. kvöldverðir á hótelum og millimál)
 • Tryggingar

Mikilvægt er að þátttakendur kynni sér ferðaskilmála vel og vandlega.

Start typing and press Enter to search

X