Sveinstindur - Skælingar - Hólaskjól

Þetta er ferð fyrir fólk sem langar að komast á aðeins fáfarnari slóðir á hálendinu. 

1. - 4. JÚLÍ 2020

SVEINSTINDUR - SKÆLINGAR - HÓLASKJÓL

1. - 4. júlí 2020

Þetta er ein af fallegustu gönguleiðum landsins og er upplifunin einstök. Leiðin liggur frá Langasjó niður að Hólaskjóli og geta göngugarpar átt von á að sjá jökla, beljandi jökulár, mosavaxnar breiður, fallega fossa, einstakar hraunmyndanir og einn fallegasta leynistað landsins. Við gistum í skálum á leiðinni og farangurinn verður fluttur á milli náttstaða. Boðið er upp á gúrmei mat og góða skálastemningu á kvöldin þar sem við skiptumst á sögum og skemmtilegheitum.

Þetta er ekki tæknilega erfið ganga en æskilegt er að þátttakendur séu í góðu formi. Við förum okkur engu óðslega og njótum ferðarinnar alla leið.

Vegalengd: 40 km.

FYRIRKOMULAG

Farangurinn okkar verður fluttur á milli náttstaða sem þýðir að við berum eingöngu dagpoka. Við tökum með okkur svefnpoka og gistum í skálum. Maturinn í ferðinni er innifalinn en við biðjum þig mögulega um hjálp við að matreiða hann. Það er líka skemmtilegra ef allir hjálpast að. 

Athugið að hægt er að fá leigðan búnað eins og svefnpoka og þess háttar.

 

DAGSKRÁ

Dagur 1: Reykjavík - Langisjór - Sveinstindur.

Lagt er af stað úr Reykjavík kl: 08.00 og keyrt áleiðis inn að Langasjó. Þar reimum við á okkur gönguskóna og höldum á útsýnisfjallið Sveinstind (1090m) þar sem ægifagurt er að horfa til allra átta. Við sjáum Vatnajökul í austri, Mýrdalsjökul í vestri, Fögrufjöll sem bera nafn með rentu og Langisjó. Þaðan er gengið niður í skála þar sem hópurinn hefur næturdvöl. Gangan tekur 3-4 klst.

Dagur 2: Sveinstindur - Skælingar. 

Byrjað á að ganga meðfram beljandi og kraftmikilli Skaftánni um mosavaxnar hlíðar. Þetta er mikill ævintýradagur með einu vaði og göngu um Hvanngil og Uxatindagljúfur sem er engu líkt. Ein á er á leiðinni og förum við úr skóm og vöðum yfir. Náttstaðurinn er við bakka Skaftár á töfrandi stað er nefnist Skælingar en þar er að finna stórkostlegar hraunmyndanir úr Skaftáreldum. Dagleiðin er um 14 km og mjög þægileg.

Dagur 3: Skælingar - Hólaskjól. 

Þessi dagur byrjar á göngu á Gjátind sem er á fótinn en útsýnið er stórkostlegt. Stoppað er á skemmtilegum myndastað áður en gengið er ofan í Eldgjá og að Ófærufossi. Á seinni helmingi leiðarinnar stoppum við á fallegum nestisstað sem fáir koma á nema þekkja sérstaklega til. Þegar komið er í Hólaskjól er endað á veglegri grillveislu. Vegalengd er 17 km. Gist er í Hólaskjóli síðustu nóttina og boðið er upp á morgunmat fyrir brottför.

DAGUR 4: HÓLASKJÓL - Reykjavík.

Vöknum úthvíld í Hólaskjóli og njótum lífsins yfir morgunmat og kaffisopa. Áður en við höldum af stað til höfuðborgarinnar fáum við okkur léttan og stuttan göngutúr og skoðum einn fallegasta foss landsins. Áætluð koma til Reykjavíkur er um kaffileytið.

Hámarksfjöldi: 14

Staðfestingargjald: 20.000 kr.

Möguleiki að skipta greiðslum á kreditkort. 

Loading...

INNIFALIÐ

  • Allar ferðir.
  • Leiðsögn.
  • Gisting í skálum. 
  • Allar máltíðir. 
  • Flutningur farangurs á milli náttstaða (trúss). 
  • Undirbúningsfundur.
  • Sérkjör á útivistarfatnaði/-búnaði. 

EKKI INNIFALIÐ

  • Almennur útbúnaður til ferðarinnar (hægt er að leigja útbúnað).
  • Aukasnarl.
  • Kvölddrykkir. 

Mikilvægt er að þátttakendur kynni
sér ferðaskilmála vel og vandlega.

Start typing and press Enter to search